Vestmannaey VE kom til löndunar í Eyjum í morgun.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir fullfermi í Eyjum í morgun. Afli beggja skipa var að mestu ýsa sem fékkst á Papagrunni. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að veiðin hafi gengið ljómandi vel. “Þarna fékkst fínasti afli og ég held að yfir 90% af aflanum hafi verið ýsa. Það var verið á Papagrunni allan tímann, það var ekkert verið að flækja þetta. Við komum til hafnar í gærkvöldi og það var landað snemma í morgun. Nú er komið sjómannadagsstopp hjá okkur og menn munu hafa það gott og skemmta sér næstu dagana,” segir Jón.

Egill Guðni Guðnason, stýrimaður á Vestmannaey, tekur undir með Jóni og segir að vel hafi fiskast. “Þarna var fínasti afli og ekki undan neinu að kvarta. Við komum til löndunar í morgun og löndun hófst nánast strax. Við munum fara út strax að löndun lokinni og reyna við karfa. Við fáum sólarhring til að sækja karfann og líklega verður reynt suðvestur af eyjunum. Menn eru býsna brattir hér um borð og farnir að hlakka til sjómannadags,” segir Egill Guðni.