Það er heldur dauft hljóðið í loðnuskipstjórunum um þessar mundir. Vertíðin virðist vera á lokametrunum og afar lítið að hafa. Það á eftir að veiða í kringum 170 þúsund tonn af útgefnum kvóta og það veldur auðvitað vonbrigðum en ekki má gleyma því að vertíðin hefur engu að síður verið stór. Heimasíðan ræddi við þrjá skipstjóra á Síldarvinnsluskipum í morgun og ekkert fór á milli mála að þeir telja að loðnuveiðum sé að ljúka að sinni. Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti NK, segir að afar lítið sé að sjá af loðnu. „Við erum hér út af Grindavík og það er ekkert að frétta. Við erum komnir með 560 tonn í nokkrum köstum á síðustu dögum. Það er nánast ekki neitt. Aflann fengum við sunnan við Reykjanesið og inni á Faxaflóa. Þetta er bara dapurt,“ segir Sturla.
Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki NK, tekur í sama streng og Sturla og segir að lítið verði vart við loðnu. „Við erum út af Herdísarvík og það er ekkert að gerast. Við erum búnir að berja upp einhver 250 tonn á fjórum dögum. Mér sýnist þetta bara vera búið þó einn og einn bátur hitti á torfu sem gefur dálítið. Nú er þetta bara þrjóskukeppni, menn þrjóskast við í þeirri von að eitthvað birtist og þá binda menn helst vonir við vestangöngu. En sú von hefur ekki ræst hingað til,“ segir Hálfdan.
Þriðji skipstjórinn sem rætt var við er Runólfur Runólfsson á Bjarna Ólafssyni AK. „Blessaður héðan er ekkert að frétta. Við höfum kastað þrisvar á undanförnum dögum og afraksturinn er 40 tonn. Menn finna yfirleitt ekkert nema smápeðrur og þegar kastað er kemur oftast lítið út úr því. Einn og einn bátur hefur þó verið heppinn og það fengust 310 tonn í einu kasti í gær. Hér er keyrt um fram og til baka og nánast allur flotinn er á þessum slóðum. Það er vægast sagt komið lokahljóð í þetta,“ segir Runólfur.