Gullver NS í Hafnarfjarðarhöfn. Ljósm. Grétar Örn Sigfinnsson

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar sl. þriðjudag og landaði 82 tonnum. Aflinn var mest þorskur, karfi og ýsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að túrinn hafi verið stuttur og drjúgur hluti hans hafi farið í að leita að ufsa án mikils árangurs. Karfinn hafi síðan fengist í Berufjarðarálnum og þorskurinn og ýsan ofan við Örvæntingarhorn.

Strax að löndun lokinni hélt Gullver til Hafnarfjarðar þar sem viðhaldi á skipinu verður sinnt. Grétar Örn Sigfinnsson, útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar, segir að reiknað sé með að unnið verði að viðhaldinu í góðar tvær vikur. Aðalvél skipsins verður tekin upp, kælikerfi í lestum endurnýjað að hluta og fleiri verkefni eru á dagskrá. Gera má ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða um miðjan september.