Landað úr Bergi VE. Nú sækir áhöfnin Slysavarnaskóla sjómanna. Ljósm. Arnar Richardson

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir fullfermi í Eyjum í gær. Vestmannaey hélt til veiða strax að löndun lokinni en áhöfn Bergs mun sækja Slysavarnaskóla sjómanna og mun skipið ekki láta úr höfn fyrr en á fimmtudagsmorgun. Heimasíðan ræddi við skipsjórana, Jón Valgeirsson á Bergi og Birgi Þór Sverrisson á Vestmannaey, síðdegis í gær og spurði þá meðal annar út í aflabrögðin. Birgir Þór sagði að nú væri á dagskránni að spara þorskinn. “Uppistaða aflans hjá okkur var ýsa og síðan aðeins þorskur, steinbítur og koli með. Það gengur ekki að moka endalaust upp þorskinum, við verðum að eiga einhver þorskkvóta í sumar. Það er búin að vera veisla upp á síðkastið en nú er komið undir lok vertíðar og ekki alveg sama kraftveiðin. Í þessum túr vorum við að veiðum austur á Öræfagrunni og Ingólfshöfða. Það þarf semsagt að sækja aflann austar en verið hefur. Túrinn byrjaði rólega en við lentum í góðri veiði á laugardag. Við vorum þrjá sólarhringa í túrnum og það fór einn sólarhringur í stím fram og til baka. Við vorum semsagt einungis tvo sólarhringa að veiðum. Við vorum heppnir með veður. Það brældi aðeins í einn dag en annars var veðrið bara gott,” segir Birgir Þór.

Rétt eins og Birgir Þór sagði Jón Valgeirsson að nú þyrfti að fara austar til veiða. “Það hefur hægst verulega á veiðum við Eyjar enda fiskurinn búinn að hrygna og hverfur þá af vertíðarslóðinni. Við vorum í tvo sólarhringa að veiðum í þessum túr. Það var byrjað á Víkinni og þar fékkst þorskur, síðan var haldið á Öræfagrunn og þar var ýsu að fá. Þá kom röðin að Ingólfshöfða en þar fékkst bæði þorskur og ýsa. Við restuðum síðan á Öræfagrunni og tókum þar enn meiri ýsu. Nú munum við Bergsmenn sækja Slysavarnaskóla sjómanna og ekki halda til veiða á ný fyrr en á fimmtudag. Við þurfum að sækja skólann á fimm ára fresti og höfum svo sannarlega gott af því,” segir Jón.