Bjarni Ólafsson AK að landa makríl og Börkur NK að koma til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK að landa makríl og Börkur NK að koma til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK er að landa 440 tonnum af makríl í fiskiðjuverið í Neskaupstað en um hádegisbil kemur Beitir NK með 240 tonn. Börkur NK er einnig á landleið með 600 tonna afla. Skipin hafa til þessa helst verið að veiðum bæði vestan og austan við Vestmannaeyjar en Beitir fékk sinn afla mun austar. Heimasíðan hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti og spurði hann um veiðiferðina. „Við tókum eitt hol í Breiðamerkurdýpinu, toguðum í um tvo tíma og fengum 240 tonn“, sgaði Tómas. „Við vorum kallaðir inn með þennan afla, enda vilja menn gjarnan fá að skoða fiskinn sem fæst á þessum slóðum og það stóð líka vel á að fá okkur inn núna strax. Við fengum aflann 90 mílum austar en við höfum verið að veiða hingað til og það munar svo sannarlega um þá vegalengd. Það virðist vera mikið af makríl víða en menn vilja forðast það að fá síld sem meðafla og þess vegna er mest veitt þar sem unnt er að fá hreinan makríl eða því sem næst. Mér líst annars vel á vertíðina, hún fer ágætlega af stað“.
 
Vinnslan á makrílnum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað hefur gengið vel til þessa.