Nýja brettasmiðjan er risin á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Ljósm.: Smári GeirssonNýja brettasmiðjan er risin á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Ljósm.: Smári GeirssonTandraberg ehf. hefur að undanförnu verið að reisa nýja brettasmiðju á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Framkvæmdir við nýbygginguna hófust í febrúarmánuði, þegar grafið var fyrir húsinu, en síðan hófust eiginlegar byggingaframkvæmdir í aprílmánuði. Húsið er 600 fermetrar að stærð og er það nú risið. Um þessar mundir er síðan unnið að uppsetningu vélbúnaðar í brettasmiðjunni og er gert ráð fyrir að framleiðsla hefjist um næstu mánaðamót.
 
 
 
Unnið að uppsetningu véla í nýju brettasmiðjunni. Ljósm.: Smári Geirsson.Unnið að uppsetningu véla í nýju brettasmiðjunni. Ljósm.: Smári Geirsson.Að sögn Einars B. Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Tandrabergs, er mikil þörf fyrir þessa nýju brettasmiðju. „Við höfum verið að framleiða 60.000 bretti á ári en með tilkomu brettasmiðjunnar verður sú framleiðsla vélvædd og auðveldari í alla staði. Í nýju smiðjunni munu að jafnaði starfa þrír menn og munu þeir geta framleitt 600 bretti á dag miðað við að einungis sé unnin dagvinna,“ sagði Einar. „Vélarnar sem notaðar verða við framleiðsluna eru ítalskar og er maður frá framleiðandanum staddur í Neskaupstað þessa dagana og stjórnar hann uppsetningu þeirra. Þessar vélar eru fullkomnar og verður auðvelt að auka framleiðsluna, jafnvel þrefalda hana, með einföldum aðgerðum. Það bendir allt til þess að í náinni framtíð muni eftirspurn eftir brettum aukast verulega. Við höfum verið að þjóna viðskiptavinum allt suður að Djúpavogi en Síldarvinnslan er langstærsti einstaki brettanotandinn og hefur keypt af okkur um 80% af framleiðslunni á undanförnum árum,“ sagði Einar að lokum.