Í októbermánuði fór fram könnun á starfsánægju meðal starfsmanna Síldarvinnslunnar. Könnunin var liður í undirbúningi fyrir endurskoðun starfsmannastefnu fyrirtækisins. Þátttaka var góð eða um 70% og sá Austurbrú um framkvæmd könnunarinnar.
Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að starfsmenn séu heilt yfir ánægðir í starfi, sáttir við yfirmenn sína, komi vel saman við vinnufélagana og geti mælt með Síldarvinnslunni sem góðum vinnustað. Þá leiða niðurstöðurnar einnig í ljós að starfsmenn séu almennt fremur sáttir við kaup og kjör, vinnuaðstöðu og aðbúnað.
Þó eru niðurstöðurnar ekki að öllu leyti nægilega jákvæðar, því einnig kemur fram að of fáir starfsmenn fái hrós eða jákvæða endurgjöf á störf sín, of fáum finnst þeir hafa tækifæri til að læra og þróast í starfi og starfsmönnum finnst að upplýsingagjöf til starfsmanna mætti vera betri. Að auki kom fram að 10% starfsmanna töldu sig einhvern tímann hafa orðið fyrir einelti í starfi sínu og fleiri töldu sig hafa orðið vitni að slíku á vinnustað.
Niðurstöðurnar verða notaðar við mótun nýrrar starfsmannastefnu sem mun miða að því að halda í styrkleika Síldarvinnslunnar sem vinnuveitanda og vinna í að laga veikleikana. Farið verður yfir niðurstöður könnunarinnar með starfsmönnum þegar ný starfsmannastefna verður kynnt, en stefnt er að því að hún verði tilbúin fyrir áramót og svo kynnt starfsmönnum í upphafi nýs árs.
Hákon Ernuson starfsmannastjóri segir að niðurstöður könnunarinnar séu almennt mjög jákvæðar en þær sýni einnig að þörf sé á umbótum á nokkrum sviðum. „Við munum fara vandlega yfir niðurstöðurnar og skoða með hvaða hætti megi bæta þá þætti sem starfsmönnum þykja að einhverju leyti aðfinnsluverðir. Einnig munu niðurstöðurnar nýtast vel við lokafrágang nýrrar starfsmannastefnu. Þá ber að hafa í huga að tekið hefur verið á ýmsum málum að undanförnu og má nefna í því sambandi eineltisfyrirlestra sem haldnir voru fyrir starfsfólk í október síðastliðnum,“ segir Hákon.