Þessa dagana er verið að kynna nýja starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar fyrir starfsmönnum fyrirtækisins. Nýja stefnan hefur verið í vinnslu síðasta árið. Við vinnslu stefnunnar var meðal annars höfð til hliðsjónar starfsánægjukönnun og viðtöl sem tekin voru við starfsmenn í öllum deildum fyrirtækisins. Helstu stefnumiðin eru svohljóðandi:
Síldarvinnslan er hátæknivætt sjávarútvegsfyrirtæki í fremstu röð. Slíkur rekstur stendur og fellur með þekkingu og frammistöðu starfsmanna. Það skiptir Síldarvinnsluna því miklu máli að hafa á að skipa góðum og ánægðum starfsmönnum. Í því skyni stefnum við að því að bjóða upp á vinnuumhverfi sem einkennist af hvatningu, öryggi og góðum samskiptum. Við viljum bjóða okkar fólki upp á:
- vinnuumhverfi þar sem stjórnendur og starfsmenn vinna að því í sameiningu að auka sífellt öryggi, velferð og árangur
- trygga vinnu og góða afkomu
- vinnu þar sem fólk er hvatt til að gera sitt besta og að efla stöðugt þekkingu sína og færni
- sveigjanleika og jafnvægi vinnu og einkalífs, eins og frekast er unnt
- samskipti sem einkennast af samráði og virðingu
- jafnrétti til launa og starfsþróunartækifæra
Stefnan inniheldur einnig fjölda markmiða og leiða sem miða að því að gera stefnuna að veruleika.
„Þetta er allt hugsað til að gera Síldarvinnsluna að enn betri vinnustað“, segir Hákon Ernuson starfsmannastjóri. „Samhliða tæknivæðingu sjávarútvegsins mun skipta sífellt meira máli að fyrirtæki séu að hugsa vel um fólkið sitt. Samkeppni um gott fólk er hörð og hún mun bara fara harðnandi á næstu árum. Þau fyrirtæki sem vinna ekki skipulega í þessum málum verða að okkar mati mun líklegri til að lenda í vandræðum með mönnun og frammistöðu“, segir Hákon. „Við höfum þegar sett af stað mörg verkefni við innleiðingu stefnunnar og það er vinna sem allir starfsmenn eiga að verða varir við. Þessa dagana erum við aðallega að vinna í miklum breytingum í tengslum við öryggismál og skipuleggja heilsufarsskoðanir, sem eru í boði fyrir alla starfsmenn yfir þrítugu. Öryggi og heilsa verða í forgangi hjá okkur og þetta eru mjög umfangsmikil verkefni. Við höfum einnig hafið vinnslu nýrrar fræðsluáætlunar sem mun vonandi líta dagsins ljós fyrir áramót, þannig að það er allt komið á fullt í að gera stefnuna að veruleika“, segir Hákon að lokum.
Hér verður nánar fjallað um einstaka þætti stefnunnar á næstu vikum, en hana má finna í heild sinni hér á heimasíðunni. Síðar verða veittar ítarlegri upplýsingar um ýmis framkvæmdaatriði tengd stefnunni.