Nýja pökkunarstöðin orðin fokheld. Ljósm. Hákon Viðarsson.Pökkunarstöðin sem verið hefur í byggingu á hafnarsvæðinu í Neskaupstað er nú fokheld og er hafin uppsetning á vélum og búnaði í húsinu. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í byrjun apríl og er það áfast fiskiðjuverinu. Um er að ræða 1000 fermetra byggingu og mun hún hýsa kassavélar og brettavafningsvélar. Miðað við núverandi afköst fiskiðjuversins er mikil þörf á að bæta pökkunaraðstöðuna en eins er vélbúnaðurinn í nýja húsinu miðaður við afkastaaukningu sem fyrirhuguð er í framtíðinni.

Uppsetning vélbúnaðar hafin. Ljósm. Hákon Viðarsson.Öll áhersla er lögð á að uppsetningu véla í pökkunarstöðinni verði lokið áður en makríl- og síldarvinnsla hefst í fiskiðjuverinu en gert er ráð fyrir að skip Síldarvinnslunnar hefji veiðar á makríl og síld í fyrri hluta þessa mánaðar.