Nýi Börkur NK í höfninni í Gdynia í gær áður en lagt var af stað til Skagen

Nýi Börkur, sem hefur verið í smíðum hjá skipsmíðastöð Karstensens í Gdynia í Póllandi, er nú á leið til Skagen í Danmörku þar sem framkvæmdum við skipið verður haldið áfram. Dráttarbátur dregur skipið til Skagen og var lagt af stað með það síðdegis í gær og er áætluð koma á áfangastað að morgni fimmtudagsins 8. október.

Frá því að skipið var sjósett í Gdynia hafa framkvæmdir gengið vel. Nú er yfirbygging komin á skipið og sést vel hvernig það mun líta út. Karl Jóhann Birgisson er í Skagen og mun fylgjast þar með áframhaldandi smíði á Berki. Í Skagen er verið að vinna í systurskipi Barkar, Vilhelm Þorsteinssyni EA og fylgist Karl Jóhann með öllum framkvæmdum þar um borð þar til Börkur kemur. Að hans sögn ganga öll verk um borð í Vilhelm ágætlega.