Nýi Börkur siglir út úr höfninni í Skagen áleiðis til heimahafnar í Neskaupstað. Ljósm. Grétar Örn Sigfinnsson

Nýi Börkur sigldi út úr höfninni í Skagen í gær áleiðis til heimahafnar í Neskaupstað. Ráðgert er að skipið komi til Neskaupstaðar á fimmtudag. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra í morgun en þá var skipið statt beint vestur af Egersund í Noregi. „Það gengur allt afskaplega vel hjá okkur. Við dólum okkur áleiðis á annarri aðalvélinni. Okkur liggur ekkert á enda eru menn að taka út sóttkví á heimleiðinni. Þetta er bara skemmtisigling. Um borð er megnið af áhöfninni og nokkrir að auki og menn eru yfir sig hrifnir af skipinu. Það er einstaklega hljóðlátt og fer vel með menn. Ég held að þetta skip sé afar vel lukkað og um borð í því er allur besti búnaður sem fáanlegur er. Við fórum í nótaprufu fyrir viku síðan og hún gekk mjög vel en áður höfðum við prófað að toga. Það verður virkilega þægilegt að vinna um borð í þessu skipi og menn eru bara alsælir,“ segir Hjörvar.