Eins og áður hefur komið fram var nýi Börkur dreginn frá Gdynia í Póllandi til Skagen í Danmörku og þangað kom hann síðdegis í gær. Það gekk vel að draga skipið enda blíðuveður allan tímann. Koma skipsins til Skagen vakti töluverða athugli og safnaðist fólk saman til að berja hið glæsilega skip augum. Þeir Karl Jóhann Birgisson og Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri eru í Skagen og fylgjast vandlega með öllum framkvæmdum í skipinu. Heimasíðan ræddi stuttlega við Karl Jóhann í dag og spurði frétta. „Þegar Börkur kom í gær var hann dreginn að hafnarkanti og bíður þar. Ráðgert er að systurskipið Vilhelm Þorsteinsson EA fari í dokk í dag og þá verður Börkur færður að hafnarkanti við skipasmíðastöðina. Þá verður byrjað að vinna í skipinu og ég geri ráð fyrir að um það bil 100 manns fari þá til starfa um borð. Það er verið að keyra hingað alls konar búnaði sem fer í skipið og má þar til dæmis nefna allar vindur. Þegar framkvæmdir um borð í skipinu verða komnar á fullt má gera ráð fyrir að 170-180 manns verði þar að störfum. Hér í skipasmíðastöð Karstensens er gott skipulag á öllu. Samskipti eru öll til fyrirmyndar og allir virðast fullkomlega kunna sitt fag. Flestir starfsmennirnir eru danskir en síðan eru hér einnig iðnaðarmenn af öðru þjóðerni, flestir pólskir. Það er lögð áhersla á það við séum gagnrýnir á öll verk því það hjálpi fyrirtækinu að gera enn betri skip. Við höfum fylgst með vinnunni um borð í Vilhelm Þorsteinssyni undanfarna daga og hún hefur gengið afar vel. Reynslan af störfunum um borð í Vilhelm mun koma okkur til góða því skipin eru eins. Skipasmíðastöðin gefur upp að vinnan um borð í skipinu í Skagen taki 5 til 6 mánuði og því megi gera ráð fyrir að henni ljúki í aprílmánuði næstkomandi. Það fer vel um okkur Jóhann Pétur hér og tíminn er fljótur að líða enda erum við að fást við virkilega spennandi verkefni,“ segir Karl Jóhann.