Gert er ráð fyrir að nýi Börkur sigli inn Norðfjörð á morgun, fimmtudag. Hið glæsilega skip verður síðan til sýnis um sjómannadagshelgina. Án efa vilja fjölmargir skoða skipið og til að dreifa álaginu munu starfsmenn Síldarvinnslunnar og fjölskyldur þeirra fá tækifæri til að skoða það á laugardag en á sjómannadaginn verða síðan allir velkomnir um borð. Efnt verður til móttökuathafnar kl. 11 á sjómannadaginn þar sem formlega verður tekið á móti skipinu. Hér verða nánari upplýsingar veittar um hvenær skipið verður til sýnis:
Laugardagur 5. Júní kl 15-17. Nýr Börkur verður til sýnis fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar og fjölskyldur þeirra. Vegna sóttvarnamála verður hleypt í hópum um borð. Sjómenn úr áhöfninni munu sýna skipið.
Sunnudagur 6. Júní, sjómannadagur, kl. 11-13.30. Tekið á móti skipinu með formlegri athöfn, það blessað og því gefið nafn. Athöfnin hefst kl. 11. Að athöfn lokinni verður skipið til sýnis og eru allir velkomnir. Sjómenn úr áhöfninni munu fara um skipið með gestum. Vegna sóttvarnamála verður hleypt um borð í hópum.