Hreinsun í hrognapottum. Ljósm. Smári Geirsson

Síðdegis sl. föstudag kom Beitir NK með 2.200 tonn af hrognaloðnu til Neskaupstaðar. Strax hófst löndun úr skipinu og nýr hrognabúnaður Síldarvinnslunnar var þar með tekinn í notkun. Að undanförnu hefur verið unnið að stækkun löndunarhúss fyrirtækisins og þar komið fyrir hrognabúnaði sem tvöldar afköstin við vinnslu loðnuhrogna. Fyrir nokkrum dögum var búnaðurinn prófaður án þess að vinnsla færi fram en nú var komið að því að vinna þessa verðmætustu afurð loðnuvertíðarinnar. Í löndunarhúsinu er loðnan „kúttuð“ og hrognin hreinsuð. Síðan fara hrognin yfir í fiskiðjuverið og þar fer lokahreinsun fram. Að því loknu eru hrognin pökkuð og fryst í fiskiðjuverinu.

Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu, segist vera mjög ánægður með það hvernig gekk að vígja nýja búnaðinn. „Þetta gekk eins og það átti að ganga. Það reyndist allt vera í góðu lagi enda njótum við frábærra verktaka og starfsfólks. Við prufuðum búnaðinn á dögunum og eftir það voru framkvæmdar smávægilegar lagfæringar. Farið var í gegnum allan farminn sem Beitir kom með og það gekk vel. Þroski hrognanna hefði þó mátt vera heldur meiri. Vonandi er þetta bara byrjunin á góðu hrognatímabili en hafa verður í huga að loðnan kemur stundum mikið á óvart. Nú er til dæmis sáralítil veiði og skipin að leita. Sum þeirra eru að leita við suðurströndina. Vonandi rætist fljótlega úr þessu,“ segir Jón Már.

Um það leyti sem löndun lauk úr Beiti sigldi grænlenska skipið Polar Ammassak inn Norðfjörð með 1.900 tonn af hrognaloðnu og hófst löndun strax. Mun þroski hrognanna í farminum vera góður. Geir Zoëga skipstjóri segir að túrinn hafi verið sérstakur. „Við byrjuðum að veiða vestur af Bjargtöngum og fengum þar um 700 tonn. Síðan var haldið inn á Breiðafjörð og þar fengust 600 tonn í tveimur köstum. Við kláruðum síðan í Nesdýpinu vestur af Vestfjörðum. Loðnan hegðar sér undarlega og gerir okkur erfitt fyrir. Hún bæði stendur djúpt og er gisin. Svo er rosalega mikið af hval á miðunum og hann skapar heilmikil vandræði,“ segir Geir.

Lokahreinsun á hrognunum í fiskiðjuverinu. Ljósm. Smári Geirsson

Hrognin eru komin og kerin eru klár. Ljósm. Smári Geirsson