Hinn nýi Polar Amaroq sigldi í fyrsta sinn inn Norðfjörð klukkan rúmlega 11 í morgun. Skipstjórar á skipinu eru Geir Zoega og Halldór Jónasson. Heimasíðan hafði samband við Geir þegar siglt var inn fjörðinn og var hann svo sannarlega glaður í bragði: „Þetta er glæsilegt hörkuskip“, sagði Geir, „við fengum skítabrælu alla leiðina frá Skagen í Danmörku og það reyndi svo sannarlega á skipið. Áhöfnin er alsæl og gat ekki hugsað sér betri jólagjöf en þetta frábæra skip. Allur búnaður um borð er fyrsta flokks og það verður svo sannarlega spennandi að hefja veiðar eftir áramótin. Það verður unun að vinna á þessu skipi“.