Nýja Bergey VE í prufusiglingu sl. sunnudag. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonNýja Bergey VE í prufusiglingu sl. sunnudag.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ný Bergey VE er í smíðum hjá skipasmíðastöðinni Vard í Aukra í Noregi fyrir Berg-Hugin, dótturfélag Síldarvinnslunnar. Gert er ráð fyrir að skipið verði afhent kaupanda hinn 1. október nk. Þessa dagana hefur skipið verið í prufusiglingum og búnaður þess prófaður. Að sögn Guðmundar Alfreðssonar hafa allar prófanir gengið vel. „Það var prufusiglt á laugardag og aftur á sunnudag. Á sunnudag var allur búnaður prófaður að undanskildum spilbúnaði. Næstkomandi föstudag verður síðan væntanlega farið í veiðarfæraprufu og þá verður allur búnaður sem tengist veiðarfærunum prófaður. Þetta hefur allt gengið mjög vel hingað til og ég á ekki von á öðru en að svo verði áfram,“ segir Guðmundur.
 
Bergey VE er systurskip Vestmannaeyjar VE sem kom ný til landsins í júlímánuði sl. Skipasmíðastöðin Vard hefur verið að smíða sjö skip sömu gerðar fyrir íslensk útgerðarfyrirtæki. Skipin eru 28,9 m að lengd, 12 m að breidd og 611 brúttótonn að stærð.