Frá vígslu pökkunarstöðvarinnar.  Ljósm. Hákon ViðarssonÍ dag var nýja pökkunarstöðin sem reist hefur verið við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar vígð. Framkvæmdir við stöðina hófust í byrjun aprílmánaðar og hafa gengið afar vel. Húsið er 1000 fermetrar að stærð og í því verður komið fyrir kassavélum og brettavafningsvélum þannig að allri framleiðslu fiskiðjuversins verður pakkað þar. Miðað við núverandi afköst fiskiðjuversins er full þörf á að bæta pökkunaraðstöðuna en vélbúnaðurinn í nýja húsinu er miðaður við afkastaaukningu sem fyrirhuguð er í manneldisvinnslunni.

Til vígsluhátíðarinnar var boðið öllum þeim sem komið hafa að hönnun og byggingu pökkunarstöðvarinnar og var þar glatt á hjalla. Jón Már Jónsson framkvæmdastjóri landvinnslu hjá Síldarvinnslunni var hress í bragði þegar við hann var rætt og lagði hann áherslu á að pökkunarstöðin væri mikilvægur áfangi í uppbyggingaráætlunum Síldarvinnslunnar á sviði manneldisvinnslu. „Framkvæmdir við byggingu hússins hafa gengið einstaklega vel“, sagði Jón Már. „Skipulag framkvæmdanna hefur verið afar gott og verktakar hafa staðið sig að öllu leyti með eindæmum vel. Byrjað var að grafa fyrir húsinu 8. apríl sl., uppsláttur hófst 25. apríl og byggingin varð fokheld um síðustu mánaðamót. Um leið og búið var að loka húsinu hófst vinna við uppsetningu vélbúnaðar og er hún komin vel á veg. Í reynd er magnað að sjá hús af þessari stærð rísa á rúmum þremur mánuðum og má þakka það Mannviti sem hannaði húsið og annaðist eftirlit með framkvæmdum og einnig helstu verktökum. Aðalverktaki var Nestak en eins komu að málum Haki ehf., Launafl ehf., Fjarðalagnir ehf., Sakki ehf., Húsið þitt ehf., Höfuð-Verk ehf., Ingólfur málari og fleiri smærri verktakafyrirtæki. Þá ber að nefna að starfsmenn Síldarvinnslunnar áttu sinn góða þátt í framkvæmdinni. Það má kalla ótrúlegt að framkvæmd eins og þessi skuli unnin á jafn stuttum tíma án þess að nokkurn tímann hafi komið upp samskiptavandamál á milli verktaka því oft var þröngt á þingi og hver að vinna ofan í öðrum á byggingarsvæðinu. Það liggur alveg fyrir að þessi framkvæmd er mjög vel heppnuð“, sagði Jón Már að lokum.