Skrokkur nýs Barkar NK er smíðaður í Gdynia í PóllandiSkrokkur nýs Barkar NK er smíðaður í Gdynia í PóllandiHaustið 2018 ákvað stjórn Síldarvinnslunnar að láta smíða nýjan Börk, skip til flotvörpu- og nótaveiða af fullkomnustu gerð. Samið var við danska fyrirtækið Karstensens Skibsværft AS um smíðina og var í upphafi ráðgert að skipið yrði afhent Síldarvinnslunni í árslok 2020. Nú liggur fyrir að kórónuveiran margumtalaða hefur haft áhrif á smíði skipsins eins og flest annað og gera má ráð fyrir að skipið verði ekki tilbúið fyrr en síðla vetrar eða um vorið 2021. 
 
Börkur er annað tveggja systurskipa sem Karstensens skipasmíðastöðin er með í smíðum fyrir íslensk fyrirtæki en hitt skipið er Vilhelm Þorsteinsson sem smíðaður er fyrir Samherja hf. Vilhelm Þorsteinsson verður afhentur á undan Berki og er nú ráðgert að smíði hans ljúki seint á þessu ári.
 
Karstensens er rótgróið fyrirtæki með höfuðstöðvar í Skagen í Danmörku en auk þess rekur það skipasmíðastöð í Gdynia í Póllandi og slipp í Nuuk á Grænlandi. Í Gdynia eru skrokkar skipanna smíðaðir og þegar þeir eru fullgerðir eru þeir dregnir til Skagen þar sem skipin eru fullkláruð. Við smíði skrokkanna starfa um 500 manns og svipaður starfsmannafjöldi er hjá starfsstöð fyrirtækisins í Skagen.
 
Karstensens er traust fyrirtæki og hefur Knud Degn Karstensen framkvæmdastjóri lýst því yfir að hann sé afar ánægður með að sinna verkefnum fyrir íslenskar útgerðir en alls er gert ráð fyrir að stöðin muni afhenda eigendum um tug nýrra fiskiskipa á þessu ári. Flest skip smíðar stöðin fyrir dönsk, sænsk, skosk og írsk útgerðarfyrirtæki. Hér er rétt að geta þess að eiginkona Karstensens, Marín Magnúsdóttir, er íslensk.  
 
Athafnasvæði skipasmíðastöðvar Kartsensens í Skagen í Danmörku. Þangað verður skrokkur skipsins dreginn og það fullklárað þarAthafnasvæði skipasmíðastöðvar Karstensens í Skagen í Danmörku. Þangað verður skrokkur skipsins dreginn og það fullklárað þarHinn nýi Börkur verður glæsilegt skip í alla staði. Lengd skipsins verður 88 metrar, breiddin 16,6 metrar og dýptin 9,6 metrar. Stærð skipsins verður 4.100 brúttótonn. Aðalvélar verða tvær 3.600 kw hvor og ásrafall skipsins verður 3.500 kw. Í skipinu verður 820 kw hjálparvél. Til að kæla aflann verða tvö kerfi í skipinu, hvort um sig 1.500 kw, en samtals verða kælitankarnir 13 talsins og verða þeir samtals 3.420 rúmmetrar. Vistarverur í skipinu verða fyrir 16 manns. Kostnaður við smíðina á nýjum Berki er áætlaður 4,5 milljarðar króna.
 
Þróunin í sjávarútvegi er ör og mikilvægt er að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hagnýti sér þá tækni sem er að ryðja sér til rúms á hverjum tíma. Í ljósi þessa hefur Síldarvinnslan hugað sérstaklega að flota sínum og dótturfélaga sínna að undanförnu og er smíðin á Berki liður í að endurnýja hann.
 
Þessi nýi Börkur er fimmta skipið í eigu Síldarvinnslunnar sem ber það nafn, en fyrirtækið festi kaup á fyrsta Berki árið 1966. Öll þessi skip hafa reynst vera happafleytur og eiga Norðfirðingar margar minningar sem tengjast sögu þeirra. Núverandi Börkur, sem hefur reynst afar farsælt skip, mun hverfa á braut þegar sá nýi leysir hann af hólmi. Núverandi Börkur var smíðaður í Tyrklandi árið 2012 en Síldarvinnslan festi kaup á honum árið 2014. Skipið er 80,3 metrar að lengd, 17 metrar að breidd og 3.588 brúttótonn að stærð.  
 
Gunnþór B. Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir að smíðin á nýjum Berki sé spennandi verkefni sem falli vel að framtíðarsýn fyrirtækisins. Hann leggur áherslu á að miklar sveiflur séu í uppsjávarveiðum og mikilvægt sé að hafa yfir að ráða fullkomnum skipum sem geti flutt gott hráefni að landi til að tryggja sem mesta verðmætasköpun. Þá bendir hann á að sóknin í kolmunna sé löng og hann sé að miklu leyti veiddur á alþjóðlegum hafsvæðum. Þá skipti miklu máli að hafa yfir að ráða stórum og öflugum skipum sem geti athafnað sig við erfiðar aðstæður. Allur tæknibúnaður og aðbúnaður um borð í nýja skipinu verður eins og hann gerist bestur og nýja skipið verður sparneytnara og burðarmeira en núverandi Börkur. Lestar núverandi Barkar séu 2.500 rúmmetrar á meðan lestar nýja skipsins verði rúmlega 3.400 rúmmetrar. Gunnþór segir að menn hafi kynnt sér vel þau uppsjávarskip sem smíðuð hafi verið á undanförnum árum og þá hafi komið skýrt í ljós að skip frá Karstensens hafi reynst afar vel, enda mikil reynsla á sviði smíði uppsjávarskipa hjá fyrirtækinu. Þá segir hann að allt samstarf við Karstensens hafi verið gott og ánægjulegt sé að fylgjast með hvernig smíði skipsins vindur fram. 
 
Þannig lítur nýr Börkur NK út fullsmíðaður: