Togarar Síldarvinnslunnar og dótturfélagsins Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum öfluðu vel á nýliðnu kvótaári. Segja má að afli þeirra hafi verið tiltölulega jafn og góður allt árið. Þrír togaranna hafa aldrei aflað meira en á síðasta ári og afli fjórða skipsins var svipaður og árið á undan. Þrír togaranna eru ísfisktogarar en Blængur NK er frystitogari. Aflinn var sem hér segir á kvótaárinu 2018 – 2019 og er afli kvótaársins 2017-2018 birtur til samanburðar:
2017- 2018 2018-2019
Gullver NS 5.739 6.232
Bergey VE 5.055 5.589
Vestmannaey VE 4.883 4.878
Blængur NK 5.500 6.330
Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs-Hugins, segir að skip félagsins hafi fiskað meira í nánast hverjum mánuði á nýliðnu kvótaári en árið á undan. Hann tekur þó fram að Vestmannaey hafi verið frá veiðum um tíma vegna viðhalds. Þá segir hann að afli skipanna á nýliðnu kvótaári sé sá mesti í sögu Bergs-Hugins, en afli á kvótaárinu 2017-2018 hafi verið sá mesti áður.
Rúnar L. Gunnarsson, skipstjóri á Gullver, segir að skipið hafi aldrei aflað meira en á kvótaárinu sem var að líða. Áður hafi aflinn verið mestur árið á undan. Hann segir að veiðin hafi verið tiltölulega jöfn en aflaaukningin á milli kvótaára á Gullver felist helst í auknum ufsaafla. Ufsaaflinn hafi verið um 500 tonnum meiri en kvótaárið á undan.
Theodór Haraldsson, skipstjóri á Blængi, segir að veiðar skipsins hafi gengið vel á kvótaárinu sem var að líða og eins hafi vinnslan um borð í skipinu gengið ágætlega. Á Blængi er lögð áhersla á að veiða ufsa og karfa en á nýliðnu ári var veitt meira af ýsu en áður. Þá hafði það mikil áhrif að Blængur veiddi rúmlega 1.500 tonn af þorski í Barentshafinu á um 30 dögum í júní og júlí sl. Blængur hefur aldrei fiskað jafn mikið og á nýliðnu kvótaári.