Norðfjarðarhöfn á síldarvertíðinni. Ljósm. Smári Geirsson

Norsk íslenskri síld á nýliðinni vertíð var fyrst landað til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað 11. september sl. Eins og fram hefur komið gekk vertíðin afar vel. Síldin hélt sig skammt út af Austfjörðum allan vertíðartímann og var veiðin góð. Síðast var norsk-íslenskri síld á vertíðinni landað í Neskaupstað 29. október sl.

Þrjú skip lögðu upp síldarafla hjá Síldarvinnslunni á vertíðinni og voru það Beitir NK, Börkur NK og Margrét EA. Beitir og Börkur lönduðu ellefu sinnum og Margrét fimm sinnum. Beitir landaði samtals 10.477 tonnum, Börkur 9.713 tonnum og Margrét 5.167 tonnum. Samtals tók því fiskiðjuverið á móti 25.357 tonnum af síld á vertíðinni. 

Á allri vertíðinni var norsk-íslenska síldin úrvalshráefni til vinnslu. Í fiskiðjuverinu var síldin ýmist heilfryst eða flökuð og fryst með roði eða án.