Beitir NK við komuna til Neskaupstaðar. Ljósm. Guðlaugur BirgissonEins og áður hefur verið greint frá seldi Síldarvinnslan uppsjávarveiðiskipið Beiti NK til Noregs í desembermánuði sl. en festi þess í stað kaup á skipinu Polar Amaroq sem var í eigu grænlenska félagsins Polar Pelagic. Eftir kaupin á grænlenska skipinu hélt það til Akureyrar þar sem unnið var að ýmsum breytingum og lagfæringum á því. Til dæmis var nótakassinn stækkaður verulega, komið fyrir nýju slönguspili og nýrri vindu á afturskipi. Á Akureyri var skipt um einkennisstafi og nafn á skipinu og fékk það að sjálfsögðu nafnið Beitir NK 123. Á meðan Beitir var á Akureyri lagði áhöfn hans stund á loðnuveiðar á Birtingi NK.

Hinn nýi Beitir kom til Neskaupstaðar að afloknum lagfæringunum í gær og getur hann fljótlega orðið tilbúinn að halda til veiða.

Hinn nýi Beitir var smíðaður árið 1997 og er 2148 brúttótonn að stærð. Getur skipið lestað um 2100 tonn rétt eins og eldri Beitir. Í hinum nýja Beiti eru tvær aðalvélar af gerðinni MaK og er hvor um sig 3260 ha. þannig að heildarhestaflafjöldi er 6250. Annars er skipið afar vel búið tækjum, hentar vel til uppsjávarveiða með flotvörpu og nót og að sjálfsögðu útbúið til að koma með kældan afla að landi.

Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Beiti segir að sér lítist afar vel á nýja skipið. „Þetta skip hentar vel til veiða og ég er sannfærður um að það á eftir að reynast með ágætum“, sagði hann. „Skipið er vel búið og það er afskaplega gott að sigla því auk þess sem það er hagkvæmt í rekstri. Þetta er gæðaskip, það fer ekkert á milli mála“.