Nýr og glæsilegur Bjarni Ólafsson AK kemur til Neskaupstaðar. Ljósm. Guðlaugur BirgissonNýr og glæsilegur Bjarni Ólafsson AK kemur til Neskaupstaðar. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÍ morgun kom nýr Bjarni Ólafsson AK til Neskaupstaðar. Nýja skipið leysir af hólmi eldra skip með sama nafni. Nýi Bjarni Ólafsson er keyptur frá Noregi og bar áður heitið Fiskeskjer. Skipið var smíðað árið 1999 og er um 2000 brúttótonn að stærð, 67,4m að lengd og 13m að breidd. Aðalvél  er 7500 hestöfl af gerðinni Wartsila. Burðargeta skipsins er 1980 tonn og er unnt að kæla allan aflann. 
 
Gísli Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni segist vera afar ánægður með skipið. „Þetta er traust og gott skip og stærra og öflugra en gamli Bjarni. Gamli Bjarni var smíðaður árið 1978 og það var kominn tími á endurnýjun. Þetta skip er betra togskip, burðarmeira og allur aðbúnaður og tækjabúnaður er betri en í gamla skipinu. Áhöfnin er afar sæl með þetta nýja skip og það verður svo sannarlega gaman að hefja veiðar,“ sagði Gísli.
 
Ráðgert er að nýi Bjarni Ólafsson haldi til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni á morgun.
 
Það er fyrirtækið Runólfur Hallfreðsson ehf. á Akranesi sem á og gerir út Bjarna Ólafsson. Síldarvinnslan á rúmlega þriðjungshlut í fyrirtækinu. Runólfur Hallfreðsson ehf. hóf útgerð árið 1973 og festi þá kaup á skipi af Síldarvinnslunni. Þar var um að ræða fyrsta skipið sem bar nafnið Börkur. Bátar í eigu Runólfs Hallfreðssonar ehf. hafa löngum verið í miklum viðskiptum við Síldarvinnsluna og hefur samstarf fyrirtækjanna verið farsælt. „Samstarfið við Síldarvinnsluna hefur ávallt verið afar gott og í reynd alltaf betra og betra með árunum. Þetta er frábært samstarf sem báðir aðilar njóta góðs af,“ sagði Gísli Runólfsson að lokum.