Nýji Polar Amaroq væntanlegur í dag.Um klukkan 13 í dag er nýr Polar Amaroq væntanlegur til Neskaupstaðar. Skipið er í eigu grænlenska fyrirtækisins Polar Pelagic sem Síldarvinnslan á þriðjung í en það leysir af hólmi eldra skip með sama nafni. Nýja skipið hét áður Gardar og var í eigu norska útgerðarfélagsins K. Halstensen AS. Það var byggt árið 2004 og lengt árið 2006.

Hið nýja skip er vinnsluskip, 3.200 brúttótonn að stærð, 83,8 m. á lengd og 14,6 m. á breidd. Í skipinu er Wartsila aðalvél, 7507 ha. og er það búið tveimur hliðarskrúfum. Skipið er búið öllum siglingatækjum og getur lestað 2535 tonn, þar af 2000 í kælitanka. Frystigeta um borð er 140 tonn á sólarhring og er þá miðað við heilfrystan fisk en frystirýmið er fyrir 1000 tonn.

Skipstjórar á nýja skipinu verða Geir Zoega og Halldór Jónasson.