Síldarvinnslan hefur á síðustu árum lagt áherslu á að eiga gott samstarf við menntastofnanir og rannsóknarsjóði af ýmsu tagi með þátttöku í nýsköpunar- og þróunarverkefnum. Nokkrum þessara verkefna er gerð skil í nýlegri samfélagsskýrslu félagsins sem nálgast má hér.  Þessi verkefni eru að stórum hluta samstarfsverkefni fyrirtækja og í umsjón Matís eða háskóla. Þau eru langflest uppbyggð á þann hátt að fjármögnun rannsókna er sótt í samkeppnissjóði, til dæmis Matvælasjóð, Tækniþróunarsjóð og Rannís. Síldarvinnslan hefur í þessum verkefnum lagt til aðstöðu og aðgang að innri þáttum starfseminnar ásamt því að taka virkan þátt í stjórnun og mótun verkefnanna. Þessi verkefni hafa flest snúið að rannsóknum á sviði sjávarútvegs, matvælaiðnaðar og orkunotkunar. Í þessu samhengi má nefna að margir háskólanemar hafa unnið að verkefnum sem tengjast starfsemi Síldarvinnslunnar og í samráði við fyrirtækið. Síðastliðin ár hefur félagið fóstrað fimm doktorsnemendur og þeir eru enn fleiri sem hafa lokið slíkum námsgráðum með rannsóknum hjá félaginu þegar horft er lengra aftur í tímann.

Félagið tilkynnti fyrir stuttu að unnið væri að uppsetningu á lítilli verksmiðjueiningu sem mun koma til með að vinna mjöl og lýsi úr afskurði (oft nefnt hliðarstraumar) frá fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Vonir standa til að hægt verði að framleiða verðmætari próteinafurðir í þessari verksmiðju en þær afurðir sem hafa hingað til verið framleiddar úr afskurði. Segja má að ákvörðun um byggingu  þessarar verksmiðjueiningar hafi byggst á árangursríku samstarfi Síldarvinnslunnar við háskólanema og Matís. Ef vel tekst til gæti þetta verkefni stuðlað að mikilli framþróun fyrir allan fiskimjölsiðnaðinn á Íslandi og aukið verðmætasköpun.

Sindri Sigurðsson verkefna- og þróunarstjóri Síldarvinnslunnar: „Síldarvinnslan, Háskóli Íslands og Matís hafa unnið í verkefnum tengdum hliðarstraumum frá manneldisvinnslu uppsjávarfiska undanfarin sex ár. Tíminn hefur verið nýttur til að greina innihald þessara strauma og afla skilnings á áhrifum átu, hausa, hryggja og roðs á samsetningu próteina og lýsis. Jafnframt hefur verið skoðað hvernig ýmis efni birtast í framleiðsluferlinu og hvernig unnt væri að hindra myndun þeirra. Nú er komið að þeim tímapunkti að nauðsynlegt er að setja upp heildstæða framleiðslueiningu til að sannreyna aðferðir og ná frekari tökum á viðfangsefninu.“

Sindri Sigurðsson verkefna- og þróunarstjóri Síldarvinnslunnar. Ljósm: Smári Geirsson