Síðustu mánuði hefur Huginn Ragnarsson starfað hjá Síldarvinnslunni við að skoða hvernig nýta má ýmis fyrirliggjandi gögn og upplýsingar við ákvarðanatöku innan fyrirtækisins. Huginn er Norðfirðingur og hefur undanfarin ár starfað við viðskiptagreiningar hjá icelandair. Hann er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er að ljúka meistaranámi í Finance and Strategic Management í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn.
Þegar Huginn er spurður um verkefni sitt hjá Síldarvinnslunni leggur hann áherslu á að hans hlutverk sé að tryggja nýtingu fyrirliggjandi upplýsinga við ákvarðanatöku. „Síldarvinnslan er með mikið magn allskonar upplýsinga sem ná til allra þátta í rekstrinum. Sem dæmi söfnuðu vigtarnar og pökkunarvélarnir í fiskiðjuverinu í Neskaupstað meira en 1,5 milljón röðum af gögnum í seinasta mánuði. Hingað til hefur ekki verið unnt að fella allar upplýsingarnar saman og nýta þær við ákvarðanatöku en mitt hlutverk er að búa til kerfi sem duga til þess. Á seinustu árum hefur framþróun í greiningarforritum gert þetta mögulegt og lausnirnar eru einfaldari og ódýrari en áður. Með aðstoð starfsmanna Síldarvinnslunnar er farið yfir öll gögn sem safnað er innan fyrirtækisins og gerðar úr þeim sjálfvirkar skýrslur og greiningar. Með þessu sparast mikill tími sem annars færi í upplýsingasöfnun til dæmis vegna uppgjöra, veiðiferða skipa, sölu afurða og fyrirliggjandi birgða. Þá gera gögnin kleift að skoða nýtingu véla, mannauðs og fleiri þátta. Með því að nota þær upplýsingar sem hægt er að safna saman með þessum hætti er unnt að haga rekstrinum eins og skynsamlegast er hverju sinni,“ segir Huginn.