Síldarvinnslan tekur á næstu vikum í notkun nýtt kerfi til að halda utan um fræðslu starfsmanna. Kerfið heitir LearnCove og er íslenskt að uppruna. Í kerfinu verður hægt að halda utan um reglubundna þjálfun starfsmanna á sviði heilsu, öryggis, gæðamála, hreinlætis, mannauðsmála, samskipta o.fl. Kerfið er einfalt í notkun og notendur ættu að vera fljótir að ná tökum á því að taka námskeið í kerfinu. Slysavarnarskóli sjómanna notar sama kerfi fyrir endurmenntun sjómanna og því ættu flestir sjómenn að þekkja kerfið af eigin raun. En hvernig og hvenær verður kerfið tekið í notkun?
„Við ætlum að taka þetta í notkun í áföngum“, segir Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri mannauðsmála, sem stýrir innleiðingunni og mun verða stjórnendum innan handar með uppsetningu og notkun kerfisins. „Við munum byrja á skrifstofunni og nota þann áfanga til að læra á kerfið áður en við hefjum almenna innleiðingu. Að því loknu munum við einbeita okkur að fiskiðjuverinu sem er fjölþjóðlegur vinnustaður þar sem unnið er á vöktum og því á heldur hærra flækjustigi. Svo tökum við deildirnar eina af annarri í framhaldinu“, segir Sigurður. En hvaða námskeið verða fyrst í röðinni?
„Við höfum keypt aðgang að mjög vönduðu safni námskeiða frá fyrirtækinu Akademias. Við munum velja úr því safni námskeið til að koma okkur af stað og munum hafa fókusinn á öryggi og heilsu. Við munum byrja á upprifjunarnámskeiði í skyndihjálp og á stuttu námskeiði um einelti á vinnustað. En svo verður allt Akademias safnið líka aðgengilegt fyrir starfsmenn og þá getur fólk valið námskeið eftir áhugasviði. Þetta eru rúmlega 100 námskeið og það finna vonandi allir eitthvað sem vekur áhuga. Við munum í kjölfarið halda vinnustofur og hjálpa hverri deild að koma sér upp sérhæfðu endurmenntunarefni. Við höfum mikla trú á LearnCove, en kerfið er hannað til að mæta þörfum fyrirtækja í sjávarútvegi sérstaklega. Það er í hraðri þróun og verður spennandi að nýta þær nýjungar sem bætast við með tímanum. Það er einnig kostur að Austurbrú, sem hefur verið okkur innan handar í símenntunarmálum, hefur líka samið við LearnCove og í því felast ýmis tækifæri til samstarfs og samvinnu“, segir Sigurður að lokum.