Bergur VE landaði í Neskaupstað á sunnudag. Ljósm. Smári Geirsson

Ísfisktogarinn Bergur VE landaði fullfermi í Neskaupstað sl. sunnudag. Aflinn var þorskur og ýsa. Heimasíðan ræddi við Ragnar Waage Pálmason skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Við vorum á Glettinganesflakinu og þar var ágætis kropp. Fiskurinn sem þarna fékkst var líka mjög góður. Í túrnum gerði suðaustanbrælu og þá dró svolítið úr veiðinni. Eftir löndun í Neskaupstað héldum við aftur á svipaðar slóðir, tókum þrjú hol en síðan var haldið suður fyrir land á Ingólfshöfðann. Nú er ekki eitt einasta skip að botnfiskveiðum á austursvæðinu enda bæði Ljósafell og Gullver í slipp en þeir eru þarna venjulega. Togararnir eru mikið í ufsaleit fyrir vestan og það hefur verið ágæt veiði á Halanum. Þetta er allt öðruvísi en í fyrra því þá voru um þetta leyti ársins 20 – 30 togarar fyrir austan í þokkalegri veiði en fiskurinn var auðvitað í síldinni,“ segir Ragnar.

Vestmannaey VE kom til löndunar í Vestmannaeyjum í morgun og sló heimasíðan á þráðinn til Egils Guðna Guðnasonar skipstjóra. „Við vorum á Víkinni og á Ingólfshöfðanum og vorum að koma til Eyja með fullfermi. Það var leiðinlegt veður í túrnum, einkum til að byrja með. Þarna voru 7 – 8 metrar en alltaf fiskur. Aflinn er langmest þorskur. Þetta er fyrsti túrinn á nýju kvótaári og það verður ekki annað sagt en að þetta nýja ár fari bara vel af stað. Við reiknum með að halda til veiða á ný strax að löndun lokinni,“ segir Egill Guðni.