LoðnuvinnslaFryst hafa verið 15 þúsund tonn af loðnu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað það sem af er vertíð.  Um er að ræða frystingarmet en mest hafa áður verið fryst tæplega 14 þúsund tonn á loðnuvertíðinni 2005.  Ekki er vitað til þess að jafn mikið hafi verið fryst á vertíð hjá einu fyrirtæki hér á landi.  Gera má ráð fyrir að heildarfrystingin á vertíðinni verði 16-17 þúsund tonn þegar upp verður staðið í lok vertíðar.

Unnið hefur verið að ýmsum umbótum á fiskiðjuverinu þannig að afköst þess hafa aukist verulega og eru gjarnan fryst yfir 500 tonn á sólarhring þegar best lætur.  Þá hefur að undanförnu verið fjárfest í nýjum frystitækjum vegna makrílfrystingar og nýtast þau einnig vel á loðnuvertíðinni.

Í fiskiðjuverinu er loðnan fryst í þrjá meginflokka:  Á Austur-Evrópu, Japansmix og Japansfrysting.  Hingað til hafa rúmlega 10 þúsund tonn verið fryst fyrir markað í Austur-Evrópu en annað í Japansmix og fyrir Japansmarkað.

Fyrir utan framleiðsluna í fiskiðjuverinu hafa loðnuskipin Hákon ÞH, Vilhelm Þorsteinsson EA og Kristina EA landað samtals 11.500 tonnum af frystri loðnu í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á vertíðinni.