DSC03722

Guðjón B. Magnússon öryggisstjóri Síldarvinnslunnar. Ljósm: Hákon Ernuson

 

 Nú stendur yfir innleiðing á nýju öryggiskerfi Síldarvinnslunnar undir stjórn Guðjóns B. Magnússonar, nýs öryggisstjóra fyrirtækisins. Sigurður Ólafsson, ráðgjafi, hefur aðstoðað Guðjón við innleiðinguna, ásamt Ásgrími Ásgrímssyni, öryggisstjóra Launafls. Markmið þessarar vinnu er að byggja upp öryggismenningu hjá fyrirtækinu þar sem hættur eru stöðugt greindar, lausnir fundnar, innleiddar, mældar og endurbættar eftir því sem tækni, veiðum og vinnslu fleygir fram. „Þetta er langtímaverkefni sem stendur og fellur með þátttöku starfsmanna og stjórnenda á hverjum vinnustað“, segir Guðjón. „Þetta snýst um að nýta þekkingu starfsmanna til að greina hættur, hanna og innleiða lausnir sem virka. Í þessu sambandi skiptir breytt hugarfar og ekki síður breytt hegðun miklu máli – markmiðið er að byggja upp öryggisvenjur sem skila árangri. Það er ljóst að það tekur tíma og orku að byggja upp öryggismenningu, en bæði rannsóknir og reynsla sýna hvað það skilar miklum árangri. Til dæmis sést mjög skýrt á slysa- og dánartíðni sjómanna hverskonar árangur næst þegar menn ganga skipulega í að auka öryggi og öryggisvitund. Fyrir örfáum áratugum fórust fjölmargir sjómenn á hverju ári. Ákvörðun var tekin um að gera ráðstafanir til að bæta öryggi sjómanna og nú eru alvarlega slys á sjó mjög fátíð miðað við það sem áður var. Slysatíðni í fiskiðnaði er hins vegar enn allt of há og ljóst að það þarf að huga betur að öryggismálunum, enda sést að flest stóru sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækin hafa ráðið öryggisstjóra til starfa og eru að stórauka áherslu á öryggismál. Það eru sífellt fleiri að átta sig á því að það þarf að ráðstafa tíma og fjármunum í öryggismálin ef árangur á að nást, en ég held líka að menn séu að þessu vegna þess að það borgar sig og skilar sér í snarlækkaðri tíðni slysa. Það er ekki  ásættanlegt að það verði slys í sjávarútvegi sem hefði mátt fyrirbyggja með réttum búnaði eða vinnubrögðum. Við stefnum því gallhörð að því að útrýma slysum hjá Síldarvinnslunni og mér finnst sérlega spennandi og gefandi að taka þátt í þeirri vinnu ásamt þeim sem hafa veitt okkur ráðgjöf á sviði öryggismálanna“, segir Guðjón að lokum.

Staðan á innleiðingu öryggiskerfis Síldarvinnslunnar er sú að búið er að gera drög að nýjum áhættugreiningum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og er nú komið að lokarýni og undirbúningi innleiðingar. „Við munum leggja mikla áherslu á nýliðafræðslu núna fyrir komandi síldar- og makrílvertíð og þá ekki síst með öryggismálin í huga. Við viljum að öryggismálin njóti athygli hvern einasta vinnudag og mikilvægi þeirra má aldrei gleymast“, segir Guðjón. Talsverðar breytingar verða gerðar á búnaði og vinnuaðstöðu til að auka öryggið fyrir síldar- og makrílvertíðina og fyrirhugað er yfirfara allt fiskiðjuverið og síðan aðra vinnustaði út frá öryggissjónarmiðum.

Reynslan úr fiskiðjuverinu verður síðan nýtt við innleiðingu kerfisins í öðrum starfsstöðvum og skipum fyrirtækisins, en meira verður að frétta af því innan skamms.