Grænlenska útgerðarfélagið East Greenland Codfish A/S hefur fest kaup á norska uppsjávarveiðiskipinu Eros og er því ætlað að leysa skip félagsins, Eriku af hólmi.
Samstarf Síldarvinnslunnar og grænlenska félagsins hefur staðið í fjölda ára. Síldarvinnslan á þriðjung í East Greenland Codfish A/S og segir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri hennar eftirfarandi um kaupin:
„Þetta er ákveðin endurnýjun á flota félagsins um leið og félagið er að fá mun öflugra skip sem býður uppá aukin tækifæri. Eigendur East Greenland sjá aukna möguleika í uppsjávarveiðum meðal annars við Grænland. Nýja skipið er mjög vel tækjum búið og hefur meðal annars verið nýtt til hafrannsókna við Noreg. Um borð í skipinu er til dæmis rannsóknastofa og þar er aðstaða til að vera með fellikjöl sambærilegan og rannsóknaskip eru með“.