Ferskur makríl. Rannsóknir á makríl eru fjölþættarFerskur makríll. Rannsóknir á makríl eru fjölþættarSíldarvinnslan hefur á undanförnum árum tekið mikinn þátt í uppbyggingu þekkingar á sviði veiða og vinnslu uppsjávarfisks í samstarfi við Matís, Háskóla Íslands og GRÓ-sjávarútvegsskóla UNESCO. Fyrirtækið hefur verið í samstarfi við sex doktorsnema sem allir hafa verið að vinna verkefni sem tengjast bættri nýtingu og þróun vinnsluferla og er verkefnunum ætlað að stuðla að aukinni verðmætasköpun. Verkefnin hafa fengið styrki frá AVS, Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði síldarútvegsins (Sigurjónsstyrkur). Doktorsnemarnir hafa dvalið lengri og skemmri tíma í Neskaupstað til að vinna að verkefnum sínum, leggja stund á mælingar og vinna að þróun nýrra afurða. Umsjónarmenn með doktorsverkefnunum eru Sigurjón Arason  prófessor og yfirverkfræðingur hjá Matís og María Guðjónsdóttir prófessor, en Sigurjón hefur haft forystu um rannsóknir og þróun á sviði vinnslu sjávarafurða um áratuga skeið. Hér skal gerð stuttlega grein fyrir umræddum doktorsverkefnum:
 
  • Paulina E. Wasik (Romotowska) vann verkefni um hámörkun gæða frosinna makrílafurða. Geymsluþol frosinna makrílafurða var kannað og lögð áhersla á að finna hvernig best væri að frysta, geyma og flytja makrílinn. Í framhaldi af þessu verkefni hefur verið unnið að bættu vinnsluferli við flökun á makríl og vöruþróun á roðlausum, frosnum makrílflökum. Paulina lauk doktorsnáminu árið 2016.
  • Hildur Inga Sveinsdóttir vinnur að verkefni sem ber heitið „Virðisaukning úr flakavinnslu Atlantshafsmakríls – geymsluþol, bestun vinnslu og nýting hliðarafurða.“ Makríllinn sem veiðist hér við land er sérlega fitumikill og því erfiður meðhöndlunar. Sérstaklega er kannað hvort unnt sé að roðskera makrílinn án þess að það hafi áhrif á gæði flakanna en með því er unnt að auka geymsluþol afurða. Verkefnið tekur einnig á nýtingu þess roðs og dökks vöðva sem skorinn er frá við roðskurðinn og stuðlar því að fullnýtingu makrílsins. Þá er kannað hvort mögulegt sé að nýta myndgreiningartækni við eftirlit og bestun vinnslu roðlausra flaka. Áætlað er að Hildur ljúki doktorsverkefninu vorið 2020.Roðlaus lausfryst makrílflökRoðlaus lausfryst makrílflök
  • Carina Fernandes vinnur að vöruþróun á afurðum úr Atlantshafsmakríl sem veiddur er við Ísland. Markmið verkefnisins er að byggja áfram á þeirri þekkingu sem hefur skapast með vinnslu makrílafurða á Íslandi til að þróa reyktar, þurrkaðar og niðursoðnar hágæðaafurðir. Verkefnið samanstendur af ítarlegum vinnslugreiningum og markaðsgreiningum fyrir nefndar afurðir til þess að tryggja að þær skili sér inn á viðeigandi markaði. Stefnt er að því að Carina ljúki verkefninu vorið 2022.
  • Stefán Þór Eysteinsson hefur unnið að rannsóknum á rauðátu, en rauðáta er ein meginfæða uppsjávarfiska í Norður-Atlantshafi. Tilgangur rannsóknanna er margþættur. Í fyrsta lagi er skaðsemi rauðátu við vinnslu uppsjávarfiska könnuð og skoðað hvernig best er að meðhöndla afla, stýra vinnslunni og geyma afurðirnar þegar áta er í fiskinum. Í öðru lagi er kannað hvaða áhrif rauðáta hefur á vinnslu á mjöli og lýsi og loks eru eiginleikar átunnar skoðaðir með tilliti til þess hvort nýta megi hana sjálfa á einhvern hátt. Gert er ráð fyrir að Stefán ljúki doktorsverkefni sínu vorið 2020.
  • Guðrún S. Hilmarsdóttir hefur unnið að rannsóknum á hvernig megi endurhanna fiskimjöls- og lýsisferla þannig að unnt verði að hefja framleiðslu á fiskpróteinum meðal annars  til manneldis. Farið er yfir mikilvægustu þrep framleiðslunnar, arðsemi metin ásamt möguleikum á vöruþróun. Efna- og eðliseiginleikar framleiðslunnar eru mældir bæði með hefðbundnum mæliaðferðum og með nýstárlegum litrófsmælingum. Nýr vinnslubúnaður er reyndur og framleiðsla úr ákveðnum hlutum hráefnisins aðskilin. Gert er ráð fyrir að doktorsverkefni Guðrúnar ljúki haustið 2020.TilraunaverksmiðjaTilraunaverksmiðja
  • • Nguyen Thi Hang vinnur að verkefni sem fjallar um gæðabreytingar í próteinum við fiskvinnslu. Aðalmarkmiðið er að rannsaka áhrif helstu vinnsluaðferða á próteingæðin s.s. við hitun, þurrkun, frystingu og frostgeymslu, fiskmjölsvinnslu og við vinnslu annarra afurða til manneldis. Megináhersla er lögð á áhrif helstu vinnsluaðferða á próteingæði við fiskmjölsframleiðslu og kannað hvernig breyta megi vinnsluferlinu til að auka gæðin. Áætlað er að Nguyen Thi Hang ljúki doktorsverkefninu síðari hluta árs 2021.Mismunandi duftafurðir úr markílMismunandi duftafurðir úr makríl
 
Sigurjón segir að samstarfið við Síldarvinnsluna hvað varðar doktorsverkefnin hafi verið afar farsælt. „Þetta samstarf hefur verið leiðandi í að tengja saman háskólaumhverfið og atvinnugreinina. Það er ómetanlegt að eiga samstarf við fyrirtæki sem leggur mikla áherslu á að stuðla að framförum og um leið auka þau verðmæti sem unnt er að ná út úr hráefninu. Með samstarfi fræðimanna og fyrirtækisins hefur tekist að ná sífellt betri tökum á vinnslu á makríl en makríllinn sem veiðist hér við land er mjög erfitt hráefni. Makríllinn getur verið átumikill og er í bráðfitun, fitan fer úr 5-10% upp í 25-30% fituinnihald og vöðvar fisksins eru lausir og viðkvæmir. Þá er verið að leita leiða til að auka fjölbreytni við  framleiðsla á fiskmjöli, finna nýja markaði og auka verðmæti þess. Á sviði mjölvinnslunnar er unnið að merkum rannsóknum í samstarfi við Síldarvinnsluna. Staðreyndin er sú að þetta eru allt spennandi og mikilvæg verkefni og niðurstöður þeirra geta haft mikil áhrif til framtíðar litið,“ segir Sigurjón.