Bergey VE, Vestmannaey VE og Smáey VE að landa í Vestmannaeyjum sl. fimmtudag. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE, Vestmannaey VE og Smáey VE að landa í Vestmannaeyjum sl. fimmtudag.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Sl. fimmtudag komu öll þrjú skip Bergs-Hugins til löndunar í Vestmannaeyjum. Bæði Bergey VE og Vestmannaey VE voru með fullfermi og Smáey VE, sem nú er í leigu hjá Samherja, kom einnig með góðan afla. Það hefur ekki gerst oft síðustu árin að þrjú skip í eigu Bergs-Hugins landi sama daginn.
 
Bæði Vestmannaey og Bergey komu síðan til löndunar á ný í gær. Heimasíðan ræddi við Egil Guðna Guðnason skipstjóra á Vestmannaey og spurði hvernig vertíðin gengi. „Hún gengur vel. Það er fínasta fiskirí og það væri ekki sanngjarnt að kvarta núna. Menn bera sig  mannalega, en það er hins vegar staðreynd að það er veðrið sem ræður því hvar veitt er. Í síðasta túr var fiskað austan við Eyjar og þar var bara þorskur. Nú er komin austanátt og þá erum við vestan við Eyjarnar og þar er fín ufsaveiði. Við fórum út klukkan þrjú í gærdag og það er einungis fjögurra tíma stím á miðin. Nú erum við búnir að taka þrjú hol, einu sinni sex tonn og tvisvar tíu tonn þannig að við getum bara ekki kvartað,“ segir Egill Guðni.