Þrjú skip við festar á Norðfirði og bíða eftir að komast að. Fjórða skipið er mjölskip á leið til Noregs. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonEins og stundum áður þegar makríl- og síldarvertíð stendur yfir er mikið um að vera í Norðfjarðarhöfn. Veiðiskipin koma hvert af öðru með afla til vinnslu og vinnsluskip landa í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Þá koma flutningaskipin hvert af öðru til að lesta afurðir. Í morgun var verið að landa um 500 tonna afla úr Berki NK og nýlega var lokið við að landa afla úr Bjarti NK. Þá beið Bjarni Ólafsson AK löndunar með um 500 tonna afla. Fyrir utan þessi veiðiskip liggur flutningaskip í höfninni sem er að taka 3.500 tonn af frystum makríl til Afríku og skip sem var að lesta 580 tonn af mjöli. Úti á firði biðu síðan þrjú flutningaskip eftir því að komast að en öll eiga þau að lesta frystar afurðir. Hið fyrsta þeirra mun taka 1.500 tonn til Evrópu, annað mun sigla til Eystrasaltsins með um 2.000 tonn og hið þriðja mun taka 6.000 tonn til Afríku. Alls munu því fara um 13.000 tonn af frystum afurðum um borð í flutningaskipin sem komin eru til Norðfjarðar.