Síldarvinnslan leggur aukna áherslu á öryggi á vinnustað.Síldarvinnslan leggur aukna áherslu á öryggi á vinnustað. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirÍ marsmánuði á þessu ári hóf Guðjón B. Magnússon að gegna starfi öryggisstjóra Síldarvinnslunnar. Þarna er um nýtt starf að ræða og ber vitni um aukna áherslu fyrirtækisins á öryggismál. Drjúgur hluti starfs öryggisstjórans hefur farið í mótun nýrrar öryggisstefnu sem er einn meginþáttur nýrrar starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar.
 
Samkvæmt hinni nýju öryggisstefnu mun öryggisfulltrúi og öryggisnefndir starfa á hverri starfsstöð fyrirtækisins og síðan verður skipað öryggisráð sem ætlað er að hafa umsjón með öryggismálum almennt og framkvæmd öryggisstefnunnar. Öryggisstjórinn mun starfa með öryggisráðinu og verða öryggisnefndunum til halds og trausts. Markmiðið með starfi öryggisstjóra er í reynd að fækka eða útrýma vinnuslysum, bæta starfsumhverfi og auka vellíðan starfsmanna.
 
Guðjón B. Magnússon segir að þegar hann hóf störf hafi góður grunnur verið til staðar en aukin áhersla á öryggismálin feli í sér að mikil vinna sé framundan á því sviði. „Ég hef kynnt mér stöðu öryggismála á flestum starfsstöðvum fyrirtækisins, bæði í vinnslustöðvum og skipum, en ákveðið var að leggja í upphafi áherslu á öryggismálin í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Ætlunin er síðan að yfirfæra reynsluna frá fiskiðjuverinu á aðrar starfsstöðvar eftir því sem við á. Mikilvægt er að fram komi að tilkoma starfs öryggisstjóra breytir ekki þeirri ábyrgð sem verkstjórar bera á hverjum vinnustað. Verkstjórarnir gegna lykilhlutverki hvað varðar öryggi í hinum daglegu störfum og þeir þurfa að gæta þess dags daglega að öryggiskröfum sé fylgt,“ segir Guðjón. „Í fiskiðjuverinu hafa verið gerðar nýjar áhættugreiningar og lokið er við að kortleggja öryggisumbætur þar. Þá hefur ýmsum umbótum verið hrint í framkvæmd og byggðu þær á úttekt Vinnueftirlitsins. Í kjölfar þessara umbóta þarf að efla aðhald og eftirfylgni. Í fiskiðjuverinu og reyndar einnig í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað hefur verið komið upp sérstökum öryggistöflum í tilraunaskyni þar sem birtar eru allskonar tilkynningar og reglur á sviði öryggismála. Það skiptir svo miklu máli að allir starfsmenn séu meðvitaðir um mikilvægi öryggismálanna og þekki þær öryggisreglur sem ætlast er til að fylgt sé. Þá er einnig mikilvægt að hvert einasta óhapp eða slys sé rannsakað og gripið til viðeigandi ráðstafana. Það sama gildir um næstum því slys. Það leynast hættur víða á vinnustöðunum og því þarf að þjálfa rétt vinnubrögð og í því sambandi er nýliðafræðsla einkar mikilvæg,“ sagði Guðjón að lokum.