Öryggisstjórarnir þrír. Talið frá vinstri: Snæfríður Einarsdóttir frá HB-Granda, Guðjón B. Magnússon frá Síldarvinnslunni og Jóhann G. Sævarsson frá Samherja. Ljósm. Hákon ErnusonÖryggisstjórarnir þrír. Talið frá vinstri: Snæfríður Einarsdóttir frá HB-Granda, Guðjón B. Magnússon frá Síldarvinnslunni og Jóhann G. Sævarsson frá Samherja. Ljósm. Hákon ErnusonSl. föstudag hittust öryggisstjórar Síldarvinnslunnar, Samherja og HB-Granda í Neskaupstað og funduðu þar um samstarf fyrirtækjanna á sviði öryggismála.
 
Guðjón B. Magnússon, öryggisstjóri Síldarvinnslunnar, segir að fundurinn hafi verið góður og gagnlegur. „Við sem störfum sérstaklega að öryggismálum innan þessara fyrirtækja ákváðum að hittast og bera saman bækur okkar. Það er full þörf á því á þessu sviði að menn miðli af reynslu sinni og læri hver af öðrum. Hjá öllum þessum fyrirtækjum er aukin áhersla lögð á öryggismál og samstaða um að öryggi eigi að vera í fyrirrúmi. Á fundinum var rætt um að efna til reglubundins samstarfs um öryggismálin og voru menn opnir fyrir þátttöku fleiri sjávarútvegsfyrirtækja í slíku samstarfi ef áhugi væri fyrir hendi,“ sagði Guðjón.
 
Þau Snæfríður Einarsdóttir, öryggisstjóri HB-Granda og Jóhann G. Sævarsson, öryggisstjóri Samherja, tóku undir það að fundurinn í Neskaupstað hefði verið gagnlegur og töldu mikilvægt að sjávarútvegsfyrirtæki hefðu góða samvinnu um öryggismálin í framtíðinni, enda sífellt meiri skilningur á mikilvægi málaflokksins.