Í dag er öskudagur og hver krakkahópurinn á fætur öðrum hefur heimsótt skrifstofur Síldarvinnslunnar og sungið fyrir starfsfólkið. Gjarnan eru krakkarnir klæddir í hina skrautlegustu búninga og söngurinn virðist vera þaulæfður. Kennarar og starfsfólk Nesskóla fylgja hópunum og allir voru brosandi og glaðir og virtust njóta dagsins til hins ítrasta. Fyrir heimsóknina og sönginn þáði unga fólkið harðfiskpoka að gjöf enda mjög viðeigandi að sjávarútvegsfyrirtæki gefi sælgæti úr hafinu.
 
Það er alltaf upplífgandi að fá heimsóknir sem þessar og meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem Hákon Ernuson tók af syngjandi krakkahópum í dag.