Öskudagurinn var í gær en þá var leiðindabylur í Neskaupstað. Vegna veðursins var öskudagsheimsóknum syngjandi barnahópa frestað þar til í dag. Í dag hefur síðan  hver hópurinn af öðrum heimsótt skrifstofur Síldarvinnslunnar og sungið af krafti vel æfða söngva. Kennarar Nesskóla hafa fylgt hópunum og skín gleði úr hverju andliti. Fyrir sönginn hefur unga fólkið þegið harðfisk, enda er það vel viðeigandi að sjávarútvegsfyrirtæki gefi sælgæti úr hafinu.
 
Það er bæði hressandi og upplífgandi að fá öskudagsheimsóknirnar og fylgja hér nokkrar myndir af kátum og syngjandi krakkahópum sem Ragnhildur Tryggvadóttir tók.