Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1.400 tonn af makríl úr Smugunni. Að undanförnu hefur makrílvinnslan í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar verið nokkuð samfelld og gengið vel. Heimasíðan ræddi stuttlega við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, og spurði fyrst hve langt hefði verið til Neskaupstaðar þegar lagt var af stað af miðunum. „Það voru um 370 mílur þannig að það er töluvert langt að fara. Aflinn sem við erum með er að hluta til okkar eigin en við tókum einnig afla frá Berki II og Vilhelm Þorsteinssyni. Við byrjuðum túrinn á að setja tvö hol í Bjarna Ólafsson. Vertíðin er í fullum gangi og það er til dæmis ágætis veiði núna hjá skipunum á miðunum. Að undanförnu hafa aflabrögðin verið misjöfn, stundum þarf að kippa svolítið og leita en svo er ágætis veiði inn á milli. Það má segja að vertíðin sé hin ágætasta þegar á heildina er litið en það hefur þurft að hafa svolítið fyrir þessu. Það er engin ástæða fyrir okkur að kvarta neitt,“ segir Tómas.