Flest skipin í loðnuflotanum voru að leita að loðnu fyrir norðan land í gær. Byrjað var að kasta út af Skagafirði seinni part dagsins en veiðin var ekki merkileg og nokkur skip fengu hvali í nótina með alvarlegum afleiðingum fyrir veiðarfærin. Börkur fékk sennilega hval í nótina í fyrra kastinu sem hann tók og reif hana síðan enn frekar í seinna kastinu. Aflinn var 250 tonn og verður haldið til Dalvíkur þar sem gert verður við nótina. Vilhelm Þorsteinsson fékk einnig hval í nótina og þurftu að sleppa kastinu niður til að forðast tjón á veiðarfærinu. Beitir fékk 940 tonn í sex köstum í gær og Bjarni Ólafsson 400 tonn í einu kasti. Nú er komin bræla á miðunum nyrðra og ekkert sérstaklega létt yfir loðnusjómönnunum.
Birtingur hefur veitt loðnu í troll út af Austfjörðum og var kominn með 630 tonn í morgun.
Enn koma norsk loðnuskip til löndunar á Austfjörðum. Í gær kom Rav með 530 tonn til Neskaupstaðar og Rogne með 150 tonn og rifna nót. Afli skipanna fór til vinnslu í fiskiðjuverinu.