Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði í gærmorgun. Afli skipsins var 101 tonn og var hann að mestu ýsa og ufsi. Er þetta önnur löndun skipsins á árinu en hann landaði um 40 tonnum eftir stuttan túr þann 17. janúar að lokinni slippdvöl í byrjun árs. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra í gær og spurði fyrst hvort menn væru sáttir við aflann. „Já, það var fínasti afli í þessum túr og það sem meira er að við fengum gott ufsaskot fyrst í túrnum. Það er gleðilegt að fá ufsaafla en það voru margir um hituna, þarna voru mörg skip að eltast við ufsann og veiðin á honum var búin eftir stuttan tíma. Eftir það lögðum við áherslu á ýsuna og það var fínasta kropp í henni. Við hófum túrinn í Berufjarðarál en síðan færðum við okkur í Hvalbakshallið og á Breiðdalsgrunn. Það var ágætis veður allan túrinn og engin ástæða til að kvarta undan veðrinu,“ segir Hjálmar Ólafur.
Gullver hélt til veiða á ný í gær að löndun lokinni.