Egill Birkir Stefánsson. Ljósm. Hákon ErnusonEgill Birkir Stefánsson. Ljósm. Hákon ErnusonEins og fram kom í viðtali við Jón Sen yfirlækni á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað hér á heimasíðunni  er ristilspeglunarátak Síldarvinnslunnar nú um það bil hálfnað og gert ráð fyrir að því ljúki um næstu áramót. Í átakinu er öllum starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem náð hafa 50 ára aldri gefinn kostur á ristilspeglun þeim að kostnaðarlausu. Egill Birkir Stefánsson, starfsmaður við löndun á uppsjávarfiski, var kallaður í speglun í marsmánuði sl.  og niðurstaða hennar var svo sannarlega athyglisverð. Egill Birkir segir svo frá: „Það hafði aldrei hvarflað að mér að fara í ristilspeglun, slíkt var fjarri mér. En þegar ég var boðaður í speglun sem starfsmaður Síldarvinnslunnar ákvað ég að láta verða af því og ég mun aldrei sjá eftir þeirri ákvörðun. Fjarlægðir voru úr ristlinum tveir separ. Annar þeirra var það stór að hann hefði að öllum líkindum þróast yfir í illkynja æxli eða krabbamein með tímanum. Þessi ristilspeglun reyndist því vera alger lottóvinningur fyrir mig og ég er ótrúlega þakklátur fyrirtækinu að það skuli bjóða okkur starfsmönnunum upp á svona rannsókn. Ég vil ráðleggja öllum starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem boðið er upp á speglun að fara í hana. Í fyrsta lagi er þetta ekkert mál og í öðru lagi verða menn að hafa í huga hvað getur komið út úr þessu. Fyrir mig reyndist þetta vera spurning um heilsufar til langs tíma og jafnvel spurning um líf eða dauða. Þessi speglun veitti mér nýtt tækifæri í lífinu og ég verð ávallt þakklátur fyrir það,“ sagði Egill Birkir.