Óveður truflar veiðar. Ljosm. Guðmundur AlfreðssonÓveður truflar veiðar. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÓveðursspáin fyrir næstu daga setur strik í reikninginn hjá skipum Síldarvinnslunnar og Bergs-Hugins. Smáey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum í nótt með um 50 tonn eftir stutta veiðiferð og Bergey VE landaði fullfermi í gærmorgun. Ekki er gert ráð fyrir að skipin haldi til veiða á ný fyrr en á sunnudag. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að mjög vel gangi að fiska en nú muni veðurhamurinn taka völdin. „Við vorum að veiða á Skeiðarárdýpinu, út af Ingólfshöfða og í Sláturhúsinu út af Hornafirði og alls staðar fiskaðist vel. Aflinn var mest þorskur,ufsi, ýsa og skarkoli. Það er allt farið að snúast mjög vel hér um borð í nýja skipinu og við höfum sko ekki undan neinu að kvarta. Framundan eru helvítis læti. Það verður kolvitlaust veður á föstudag og hundleiðinlegt á laugardag þannig að líklega verður ekki farið út fyrr en á sunnudag. En nú er vertíðin framundan og hún er alltaf mikið tilhlökkunarefni. Vertíðin er bara skemmtilegasti tími ársins, svo einfalt er það,“ segir Jón.
 
Síldarvinnsluskipin Gullver NS og Blængur NK munu einnig leita hafnar vegna veðurs. Ísfisktogarinn Gullver mun væntanlega koma til Seyðisfjarðar í fyrramálið en frystitogarinn Blængur er væntanlegur til Neskaupstaðar í nótt.