Síldarvinnsluskip í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Slæmt veður leiddi til þess að frestað var að frystitogarinn Blængur og loðnuskipin héldu til veiða á nýju ári í gær eins og ráðgert hafði verið. Brottför skipanna var frestað um sólarhring og er nú gert ráð fyrir að þau haldi til veiða í kvöld eða um miðnætti. Ísfisktogarinn Gullver er á Seyðisfirði og þar er verið að vinna að gírupptekt í skipinu. Áætlað er að Gullver haldi til veiða í lok vikunnar.

Bergey hélt til veiða frá Vestmannaeyjum á miðnætti nýársdags og er að fiska fyrir sunnan land.

Grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Ammassak komu að landi á gamlársdag en þau voru á loðnuveiðum norðaustur af landinu. Polar Amaroq landaði 1.200 tonnum í fiskmjölsverksmiðjuna á Seyðisfirði í gær og Polar Ammasak mun landa þar 2.000 tonnum í dag. Að sögn Eggert Ólafs Einarssonar, verksmiðjustjóra á Seyðisfirði, gengur vinnsla afar vel.