Grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq landaði fullfermi eða 640 tonnum af frosinni loðnu í Hafnarfirði sl. mánudag. Þeirri loðnu sem flokkaðist frá við vinnsluna var síðan landað í Helguvík. Aflinn fékkst í grænlensku lögsögunni norðvestur úr Straumnesi en undir lok veiðiferðarinnar lagðist ís yfir veiðisvæðið þar og þá fékkst ágætur afli á svæði sem var um 80 mílum norðaustar. Heimasíðan hafði samband við Geir Zoëga skipstjóra í morgun en þá var skipið í vari inni á Ísafjarðardjúpi á „Hótel Grænuhlíð.“ Í gær leitaði skipið loðnu djúpt út af Hornbjargi, um 30 mílur inn í grænlensku lögsöguna. „Þar var brjálað veður og hafís og það spáir brælu fram á sunnudag, þannig að við fórum bara á Hótel Grænuhlíð og höfum það huggulegt,“ sagði Geir. „Við fengum ágætan afla í síðasta túr og það var töluvert að sjá af loðnu en nú er svæðið sem við veiddum helst á komið undir ís og ég tel að loðnan sem var þar sé komin inn í íslenska lögsögu. Loðnan sem fékkst var ágæt, ekki síst sú loðna sem við fengum undir lok túrsins, en þá höfðum við fært okkur um 80 mílur vegna hafíssins. Í gær fórum við á svæði sem við höfum veitt á síðustu ár og þar vorum við komnir í lóð þegar við þurftum frá að hverfa vegna veðursins. Annars rákumst við á fínustu loðnutorfur inni í íslensku lögsögunni á útleiðinni í gær og eins þegar við sigldum í var. Það var verulega mikla loðnu að sjá í kantinum djúpt norður af Straumnesi í bakaleiðinni og í sannleika sagt virðist vera loðna mjög víða. Ég er býsna bjartsýnn eftir síðasta túr og þetta sem við sáum í gær. Þá virðist loðnan vera vel á sig komin. Það er helst að veðrið og ísinn séu að stríða okkur og koma í veg fyrir nótaveiðar, en það er ekkert nýtt.“ sagði Geir að lokum.