Polar Amaroq heldur til kolmunnaveiða á föstudag.  Ljósm. Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir

Polar Amaroq, hið nýja uppsjávarveiðiskip East Greenland Codfish, mun halda til kolmunnaveiða á gráa svæðinu við Færeyjar á föstudag.  Kolmunnakvóti skipsins er um 4.000 tonn og er áhugi fyrir því að láta vinna aflann til manneldis að sögn Geirs Zoëga skipstjóra.

East Greenland Codfish er eina grænlenska fyrirtækið í sögunni sem gert hefur út skip til uppsjávarveiða en áður en það festi kaup á Polar Amaroq átti það uppsjávarveiðiskipið Eriku.

Árið 2012 festi grænlenska útgerðarfyrirtækið Polar Seafood kaup á 66% hlut í East Greenland en eins og kunnugt er á Síldarvinnslan þriðjung í félaginu.

Nýlega var haft eftir stjórnarformanni Polar Seafood í fjölmiðlum að félagið hygðist auka vægi veiða og vinnslu á uppsjávarfiski á komandi árum enda væri makríll farinn að ganga inn í grænlenska lögsögu og líklegt væri að síld myndi einnig gera það í framtíðinni.