Síðar í dag mun grænlenska skipið Polar Amaroq halda til loðnuleitar frá Neskaupstað. Heimasíðan ræddi við Þorstein Sigurðsson, sviðsstjóra uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun, um fyrirhugaða leit. Þorsteinn sagði að ákveðið hefði verið á samráðsfundi Hafrannsókastofnunar og útgerðarinnar að halda áfram að vakta loðnuna og hafa samstarf um það verkefni. „Polar Amaroq mun væntanlega hefja leit í Norðfjarðardýpi og halda síðan norðureftir. Gert er ráð fyrir að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson haldi síðan til leitar á föstudag og mun það halda vestur eftir. Byrjað verður á að skoða útjaðra leitarsvæðisins en megintilgangurinn er að kanna hvort eitthvað hefur bæst í þau rúmlega tvö hundruð þúsund tonn sem mældust á dögunum. Það er ekki búið að ákveða hve lengi þessi skip verða við leit núna en það mun meðal annars fara eftir því hvort eitthvað hefur breyst frá fyrri leit,“ segir Þorstreinn.