Polar Amaroq  GR 18-49. Ljósm. Hákon ViðarssonUm klukkan fjögur sl. nótt kom grænlenska vinnsluskipið Polar Amaroq með fyrstu loðnu haustsins til Neskaupstaðar. Aflinn var 430 tonn af frystri loðnu og tæplega 900 tonn sem fóru til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni eða samtals rúmlega 1300 tonn. Heimasíðan hafði samband við Halldór Jónasson skipstjóra og sagði hann að veiðiferðin í grænlensku lögsöguna hefði að mörgu leyti gengið vel en þó hefði óhagstætt veður sett strik í reikninginn. „Við héldum til veiða frá Neskaupstað 2. nóvember“, sagði Halldór. „Við náðum einungis einum degi á miðunum en þá skall á bræla. Þá var haldið inn á Ísafjarðardjúp og legið undir Grænuhlíð og loks var siglt til hafnar á Ísafirði. Á þessum eina degi tókum við þrjú hol og fengum um 50 tonn í hverju þeirra. Að aflokinni brælunni var aftur haldið á miðin og þá var veitt fyrir norðan 68. gráðu eða mun norðar en áður. Þarna fengum við tvo góða daga til veiða og fengum 1100-1200 tonn í fjórum holum. Loðnan sem veiddist þarna norðurfrá var mjög góð og mun betri en við höfðum fengið í upphafi veiðiferðarinnar. Hér um borð eru menn sáttir við þennan fyrsta loðnutúr haustsins og það verður haldið á miðin á ný strax að lokinni löndun“, sagði Halldór að lokum.