Polar Amoraq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amoraq í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq landaði fullfermi af frystri loðnu eða 640 tonnum í Hafnarfirði þriðjudaginn 17. nóvember. Þeirri loðnu sem flokkaðist frá í vinnslunni var landað í Helguvík. Þetta er annar fullfermistúr skipsins í þessum mánuði. Í veiðiferðinni var ágæt loðnuveiði Grænlandsmegin á Dohrnbankanum og var loðnan heppileg til vinnslu. Að löndun lokinni hélt Polar Amaroq aftur á sömu mið en þá var ís lagstur yfir veiðisvæðið. Halldór Jónasson skipstjóri sagði að nú væri loðnan af þessu svæði án efa gengin inn í íslenska lögsögu.
 
Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar sl. mánudag og þá var Halldór skipstjóri tekinn tali. „ Þetta var fínasta loðna sem við vorum að vinna í síðasta túr og við fengum aflann í fjórum holum. Þegar við komum út á ný var kominn ís yfir veiðisvæðið. Við byrjuðum þá að leita innan grænlensku lögsögunnar þar sem íslaust var en þar fundum við ekkert. Síðan leituðum við út af Vestfjörðum í íslensku lögsögunni og þar mátti sjá fínar lóðningar á köflum í kantinum við Halann. Það má hins vegar ekki veiða loðnu í troll innan íslenskrar lögsögu og því var lítið aðhafst. Við köstuðum nótinni að vísu tvisvar en loðnan gefur sig ekki í nótina ennþá. Þá sigldum við og leituðum austur með Norðurlandi en þar var lítið að sjá þó dálítið ryk kæmi í ljós vestan við Kolbeinseyjarhrygg. Í ljósi þess að brælur eru í kortunum var ákveðið að sigla til Neskaupstaðar og þangað var komið sl. mánudag. Við gerum jafnvel ráð fyrir að fara út á ný eftir helgi og taka lokastöðu á þessu fyrir jólin,“ sagði Halldór. Loðnulóðning á kantinum við Halann sl. laugardag. Ljósm. Halldór JónasonLoðnulóðning á kantinum við Halann sl. laugardag. Ljósm. Halldór Jónason