Vinnsluskipið Gardar .Grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelagic, sem Síldarvinnslan á þriðjung í, hefur fest kaup á vinnsluskipinu Gardar af útgerðarfyrirtækinu K. Halstensen AS í Noregi. Beitir NK mun ganga upp í kaupin en núverandi uppsjávarskip Polar Pelagic, Polar Amaroq, mun verða eign Síldarvinnslunnar og fá nafnið Beitir.

Meginástæðan fyrir kaupunum á Gardar er nauðsyn þess að Polar Pelagic eignist vinnsluskip, ekki síst vegna nýtingar á makrílnum sem veiddur er innan grænlenskrar lögsögu. Gardar er stórt og öflugt skip sem hentar vel fyrir þær aðstæður sem grænlenska útgerðarfélagið býr við. Gardar var byggður árið 2004 og lengdur árið 2006. Hann er 3.200 brúttótonn að stærð, 83,8 m. á lengd og 14,6 m. á breidd. Skipið er vel búið öllum siglingatækjum og getur lestað 2535 tonn , þar af 2000 í kælitanka. Aðalvélin er 7507 ha. Wartsila og er skipið búið tveimur hliðarskrúfum, 950 ha. að framan og 1200 ha. að aftan. Frystigetan um borð er 140 tonn á sólarhring þegar miðað er við heilfrystan fisk en frystirýmið er fyrir 1000 tonn.

Beitir NK. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirBeitir NK mun ganga upp í kaupin á Gardar en Síldarvinnslan festi kaup á honum árið 2009. Beitir var byggður árið 1998 og er 2188 brúttótonn að stærð. Hann getur lestað 2100 tonn og er búinn 9.999 ha. aðalvél af gerðinni Wartsila. Polar Pelagic festi kaup á Polar Amaroq í marsmánuði á þessu ári en skipið var byggt árið 1997. Polar Amaroq  er 2148 brúttótonn að stærð og getur lestað um 2100 tonn rétt eins og Beitir. Í Polar Amaroq eru tvær aðalvélar af gerðinni MaK og er hvor um sig 3260 ha. þannig að heildarhestaflafjöldi er 6.520.

Polar Amaroq. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirGert er ráð fyrir að Gardar verði afhentur nýjum eiganda 15.-18. desember og Beitir NK verði afhentur á sama tíma. Polar Amaroq (hinn nýi Beitir) verður afhentur Síldarvinnslunni um svipað leyti.  Mun Beitir fara í slipp í Danmörku fyrir afhendingu og nokkrar endurbætur munu verða gerðar á Polar Amaroq. Frá því að Beitir heldur af landi brott og þar til að hinn nýi Beitir verður tilbúinn til veiða mun áhöfnin halda til síldveiða á Birtingi NK sem hefur að undanförnu legið í höfn á Seyðisfirði.