Frá skákhátíðinni á Grænlandi.Frá skákhátíðinni á Grænlandi.Skákfélagið Hrókurinn hefur árum saman hlúð að skákiðkun á Grænlandi og hafa fulltrúar þess farið um 50 ferðir til Grænlands í þeim tilgangi að kenna skáklistina og efla skáklífið. Nú í febrúarmánuði efnir félagið til skákhátíðar á Austur-Grænlandi og er grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelgic helsti bakhjarl hennar, en Síldarvinnslan á þriðjung í útgerðarfélaginu. Hinn 13. febrúar hófst hátíðin í Kulusuk með skákkennslu og fjöltefli en þátttakendurnir voru ung skólabörn. Kjörorð skákleiðangurs Hróksins er „Með gleðina að leiðarljósi“ og það má með sanni segja að gleðin skíni úr andlitum þeirra barna sem taka þátt í skákhátíðinni. Um sl. helgi var síðan hátíðinni haldið áfram í Tasiilaq en þar á einmitt grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq heimahöfn. Polar Amaroq er skip sem veiðir mikið við Ísland og er einmitt á loðnuveiðum við landið um þessar mundir.